Eftir Ingibjörg Valdimarsdottir
•
4. júlí 2023
Fundargerð Aðalfundur Atvinnufélagsins Grand Hótel Reykjavík, 28. júní 2023, kl. 16:30 Sigmar Vilhjálmsson, formaður, bauð aðalfundarfólk velkomið og setti fundinn. Því næst lagði hann til að Ingibjörg Valdimarsdóttir tæki að sér fundarstjórn og Aðalheiður Jacobsen ritun fundargerðar og var það einróma samþykkt. Ingibjörg þakkaði viðstöddum traustið og kannaði að því búnu hvort löglega hafi verið boðað til fundarins. Svo reyndist vera og var þá gengið til venjubundinna aðalfundarstarfa skv. dagskrá. Fyrst á dagskrá var skýrsla stjórnar og bauð fundarstjóri Sigmari Vilhjálmssyni orðið. Er formaður hafði lokið máli sínu, þakkaði fundarstjóri honum fyrir greinargóða skýrslu og lagði að því búnu til að fyrirspurnir og umræður um skýrsluna yrðu teknar eftir kynningu á ársreikningum. Var það einróma samþykkt. Fundarstjóri gaf þá orðið Elísabetu Jónsdóttur, stjórnarkonu, sem haldið hefur utan um fjármál félagsins. Í yfirferð Elísabetar kom m.a. fram að tekjur voru samtals um 4,2 milljónir króna og útgjöld Atvinnufjelagsins væru 2,2 milljónir. Félagið á samtals 5,2 milljónir í eigið fé. Er Elísabet hafði lokið máli sínu opnaði fundarstjóri á fyrirspurnir og umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning. Að umræðum loknum bar fundarstjóri svo upp skýrslu og ársreikninga, sem fundarmenn samþykktu samhljóða. Næst á dagskrá fundarins voru lagabreytingar en engar breytingar lágu fyrir fundinum og því var haldið í næsta lið. Næst á dagskrá var ákvörðun félagsgjalda og lagði stjórn til að félagsgjöld yrðu óbreytt á milli ára og var það samþykkt. Félagsgjöldin á starfsárinu 2023-2024 verða því sem hér segir: Einyrkjar kr. 35.000 2-9 stöðugildi kr. 75.000 10-19 stöðugildi kr. 125.000 20-49 stöðugildi kr. 175.000 50-99 stöðugildi kr. 250.000 100 eða fleiri kr. 350.000 Félagasamtök kr. 500.000 Verða þær innheimtar í tvennu lagi, fyrri helmingur um mitt árið og seinni helmingur í lok árs. Næst á dagskrá var stjórnarkjör og skal skv. samþykktum formaður stjórnar kjörinn fyrst. Fyrir fundinum lá framboð Sigmars Vilhjálmssonar og lýsti fundarstjóri eftir fleiri framboðum. Aðrir gáfu ekki kost á sér. Fundarstjóri bar því fram tillögu um endurkjör Sigmars Vilhjálmssonar og var hún einróma samþykkt. Gekk fundarstjóri þá að næsta dagskrárlið sem var kosning sex meðstjórnenda. Fyrir fundinum lá framboð Aðalheiðar V. Jacobsen, Elísabetar Jónsdóttur, Gunnars Inga Arnarsonar , Helgu Guðrúnar Jónasdóttur og Ingibjargar Valdimarsdóttur. Þeir sem ekki bjóða sig áfram fram og víkja úr stjórn er Ómars Þorgils Pálmasonar. Fundarstjóri lýsti eftir öðrum framboðum og bauð Valur Stefánsson sig fram. Fundarstjóri bar fram tillögu um kjör áðurnefndra sem meðstjórnenda og var það samþykkt einróma. Þá lágu fyrir fundinum tillaga um Jónínu Bjartmarz og Snorra Marteinssonar í varastjórn. Önnur framboð bárust ekki og var framboð þeirra einróma samþykkt. Hvað skoðunarmann félagsins snertir var tillaga um Ómar Davíðsson einróma samþykkt, en aðrar tillögur um skoðunarmann voru ekki gerðar. Næst á dagskrá aðalfundarins var ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir komandi starfsár. Fráfarandi stjórn gerði tillögu um að stjórnarlaun verði ekki greidd til stjórnarmanna að þessu sinni, líkt og verið hefur hjá fráfarandi stjórn og var það einróma samþykkt. Fyrir lág erindi varðandi nýsköpunar- og frumkvöðlastarf og verða þau mál tekin betur fyrir í stjórn þegar frekari upplýsingar liggja fyrir. Fleira var ekki gert og var aðalfundi slitið kl. 17:15 /AJ